Nokkur ráð fyrir betri svefn í útilegunni
Svefn er gríðarlega mikilvægur og ekki síður þegar þú ert í útilegu. Það er algengt í tjaldútilegu að fólki verði kalt að næturlagi og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga fyrir betri svefn.
Staðsetning tjaldsins
-
Veldu flatan og sléttan stað þar sem þú ætlar að hafa svefnherbergin á tjaldinu. Ekkert er óþægilegra en að vera í halla þegar maður sefur.
-
Hafðu í huga að sólin rís í austri. Því er gott að tjalda þar sem skuggi fellur á tjaldið að morgni til að forðast að vakna í steikjandi hita.
-
Ekki tjalda á lægsta punkti á svæðinu. Ef það skyldi rigna þá safnast vatnið saman á lægsta punkti og tjaldið þitt og allt í því verður rennandi blautt.
Svefnpokinn
-
Við veljum svefnpokann alla daga fram yfir sæng. Svefnpokar eru einfaldlega mun meira einangrandi en sængur og halda betur á þér hita.
-
Mismunandi einangrunareiginleikar eru á svefnpokum og því mikilvægt að hugsa út í við hvaða aðstæður þú ætlar að nota hann.
-
Passið upp á að svefnpokinn sé alveg þurr áður en á að nota hann.
Dýna
-
Vindsængin hentar vel þegar pláss er af skornum skammti en því miður hafa þær ekki góða einangrunareiginleika. Til þess að einangra er gott að setja undir dýnuna áldýnu, flísteppi eða ullarteppi og ofan á einnig. Ef þú setur ekkert milli þín og dýnunnar er líkaminn þinn að hita loftið í dýnunni og þá verður þér fljótt kalt.
-
Sjálf uppblásanlegar dýnur hafa gríðarlega góða einangrunareiginleika og eru mun þægilegri en vindsængur. Dýnurnar pumpa sig upp sjálfar og svo geturu stillt stífleikann eftir óskum með því að pumpa í eða úr henni.
Náttföt
-
Gott er að vera í léttum og þægilegum ullarnærfötum og með húfu úr merinóull til að halda á sér hita.
Svefngríma og eyrnatappar
-
Á Íslandi búum við það að á sumrin er bjart allan sólarhringinn. Því er gott að vera með svefngrímuna með sér til að vakna ekki eldsnemma við birtuna.
-
Eyrnatapparnir geta verið mjög hjálpsamir þar sem engin hljóðeinangrun er í tjaldi. Allskyns hljóð geta haldið fyrir þér vöku í útilegunni eins og til dæmis umgangur á tjaldsvæðinu eða vindurinn.