Þægilegri útilega með þessum ráðum
Tjald - lofthæð, svefnpláss og undirlag
-
Lofthæð - Það gerir mikið fyrir þægindi að hafa tjald sem er með fullri lofthæð og hægt er að standa í uppréttur, teygja úr sér, klæða sig í o.s.frv.
-
Svefnpláss - Veldu meira pláss - ertu í 3 manna fjölskyldu? Veldu þá 4 manna tjald. Þið fáið meira pláss í svefnherberginu per fjölskyldumeðlim og getið þar að auki geymt töskur með fötum og slíku, inni í svefnherberginu líka. Þægilegra og snyrtilegra.
-
Undirlag - eða fótspor eins og það er stundum kallað, ver tjaldbotninn fyrir hnjaski og gefur smá auka einangrun. Það þarf þó að passa að það smellpassi undir tjaldbotninn svo að vatn leki ekki á milli undirlagsins og botnsins.
Dökk svefnherbergi
-
Sólin rís snemma á Íslandi á sumrin og því er gott að hafa einhverja myrkvun á svefnherbergjunum til þess að hjálpa við að ná betri og lengri svefn.
-
Einnig er gott að nota svefngrímur og eyrnatappa fyrir þau sem vilja.
Þykk, þægileg og einangrandi dýna
- Dýnan skiptir öllu máli og þá mælum við með að taka dýnu sem er hið minnsta 10 cm þykk. Með sjálfuppblásanlegri dýnu færðu mikil þægindi og góða einangrun og svo eru uppblásanlegar dýnur með minnissvamp á líka þægilegar og einangrandi.
Svefnpokar með meira plássi
- Sefur þú á hliðinni? Þá getur verið að þú sért ekki mikill aðdáandi hefðbundinna svefnpoka sem eru líka kallaðir múmíusvefnpokar. Núna eru í boði svefnpokar sem eru með auknu fótaplássi og eru því betri fyrir þá sem vilja geta hreyft sig og meira pláss án þess að fórna einangrunar eiginleikum svefnpokans.
-
Svefnpokinn þarf líka að vera tilbúinn í það hitastig sem þú ætlar að sofa í honum í. Skoðaðu TOG gildi svefnpokans, því hærra sem það er því hlýrri er pokinn. Fyrir Íslensk sumur þá er ráðlagt að nota svefnpoka með 9.0 eða hærra í TOG gildi.
Koddar
- Ekki gleyma koddanum heima! Þarf að segja meira? Góður koddi kemur í veg fyrir hálsríg sem verður að hausverk o.s.frv.
Gólfteppi
- Settu teppi á gólfið og búðu þannig til einangrunarlag á tjaldbotninn. Það verður bæði hlýrra og heimilislegra í tjaldinu fyrir vikið. Að auki þá ver teppið botninn á tjaldinu fyrir hnjaski frá húsgögnum eins og stólum og borðum.
Rafmagnspumpur
- Með flestum uppblásnum tjöldum fylgja handvirkar pumpur til að blása upp tjöld. Rafmagnspumpur eru þægilegri að því leyti að þú stingur þeim í samband í bílinn og fylgist svo með pumpunni dæla. Hægt er að stilla ákveðin þrýsting sem þú vilt í súlurnar á flestum pumpum en alltaf best að vera viðbúin að slökkva ef það stefnir í yfirþrýsting.
- Einnig er gott að nota litlar rafmagnspumpur til að dæla í og úr húsgögnum. Sparar tíma og pláss þegar pakka á saman, þar sem pumpan nær loftinu betur úr dýnum og húsgögnum.
Rafmagnskaplar og hleðslubankar
- Flest betri tjaldsvæði bjóða upp á rafmagnsinnstungur fyrir 3ja pinna plögg til að tengja í hjólhýsi og tjaldvagna. Hægt er að fá breytistykki til að tengja við venjulegt millistykki og þá er hægt að tengja hitara, hlaða snjalltæki, tengja rafmagnskælibox og fleira. Bókið tjaldstæði til að vera örugg um að fá rafmagn þegar mætt er á svæðið.
- Annað sem gott er að hafa með eru hleðslubankar. Rafmagn á tjaldsvæðum getur klikkað eins og annarsstaðar og því gott að hafa vara afl.